Aston Martin í formúlu-1

Nafn breska lúxus- og sportbílasmiðsins Aston Martin mun birtast í formúlu-1 á næsta ári. Verður það hluti af formlegu heiti Red Bull liðsins. Verður heiti þess Aston Martin Red Bull Racing.

Red Bull og Aston Martin hófu samstarf í fyrra og unnu í sameiningu að ofurbílnum Valkyrie sem prófanir hefjast með á næsta ári, 2018.

Í vetur juku fyrirtækin á samstarf sitt og í því sambandi hefur sérstök 110 manna sveit hönnuða- og verkfræðinga Aston Martin hreiðrað um sig í höfuðstöðvum Red Bull liðsins. Verkefni þeirra í samstarfi við tæknisveitir Red Bull verður að hanna og þróa bíla sem koma munu í framhaldi af Valkyrie.  

Nú segir forstjóri Aston Martin að bílsmiðurinn hefði hugsanlega áhuga á að framleiða keppnisvélar fyrir bíla formúlu-1 frá og með 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert