Williams ræður Sírotkín

Williamsliðið hefur valið rússneska nýliðann Sergei Sírotkín til að aka við hlið Lance Stroll á komandi keppnistíð. Stóð valið að lokum milli hans og pólska ökumannsins Robert Kubica.

Sírotkín er 22 ára og hreif liðið við reynsluakstur, m.a. í Dubai eftir vertíðarlok. Hann varð þriðji í stigakeppni ökumanna í GP2-formúlunni bæði 2015 og 2016 og sinnti reynsluakstri hjá Renault 2017.

Með þessu velur Williams þá leið að selja sæti því Sírotkín er sagður færa liðinu minnst 20 milljónir dollara í styrktarfé fyrir ráðninguna. Stroll keypti sömuleiðis sæti sitt og borgar moldríkur faðir hans það.

Því er þetta gamla stórveldi með tvö ökumenn sem báðir kaupa sér sæti og samtals eiga þeir bara eina keppnistíð að baki í formúlu-1, þ.e. keppnisárið í fyrra er Stroll ók við hlið Felipe Massa.

Sírotkín segir það gríðarlega stóra stund fyrir sig að vera ráðinn sem ökumaður til hins fornfræga liðs, Williams. „Ég varð að leggja mikið á mig til að ná þessum áfanga og er því afar ánægður og um leið þakklátur öllum sem aðstoðuðu mig á leiðinni að þessu marki.“

Kubica reynsluökumaður

Williams hefur ekki sleppt hendinni af Kubica því hann hefur verið ráðinn reynslu- og þróunarökumaður í ár. Sem þýðir að hann mun aka fyrir liðið við bílprófanir og á æfingum keppnishelga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert