Ferrari frumsýnir titilsbíl

Ferrari svipti keppnisbíl sinn í ár hulum en hann gengur undir tegundarnafninu „SF71H“. Honum er ætlað að færa liðinu langþráðan heimsmeistaratitil á komandi keppnistíð.

Sú megin útlitsbreyting sem átt hefur sér stað frá í fyrra er að nú sést tæplega hvítur blettur á bílnum. Komnar eru gráar línur til áhersluauka hér og þar og hjálmhlífin er rauð eins og allt annað.

Liðsstjórinn Mauricio Arrivabene sagði að dagurinn í dag væri honum sérlega hugumkær. „Í hvert sinn sem þú sérð nýjan Ferrari gerist eitthvað í tilfinningum manns. Þegar ég lít bílinn augum hugsa ég til þessara náunga,“ sagði hann og benti til tæknimannanna sem viðstaddir voru frumsýningarathöfnina í Maranello.

„Þeir hafa hannað bílinn, sett hann saman og þróað hvert einasta stykki hans af ástríðu, helgun og mikilli starfsorku,“ sagði Arrivabene.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert