Hamilton vel á undan

Lewis Hamilton á Mercedes var ekki skákað á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Melbourne. Besti hringur hans var hálfri sekúndu betri en næsta manns, liðsfélaga hans Valtteri Bottas.

Max Verstappen hjá Red Bull átti þriðja besta hring æfingarinnar sem fram fór  undir skafheiðum himni og 25°C hita. Yfirborðshiti brautarinnar mældist 38°C.

Eftir 90 mínútna akstur reyndist Hamilton hafa 0,745 sekúndna forskot á Verstappen. Kimi Räikkönen á Ferrari varð fjórði á lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar, liðsfélagi hans Sebastian Vettel fimmti og heimamaðurinn Daniel Ricciardo á Red Bull sjötti.

Staða sem þessi kom margoft upp í fyrra og sé þessi æfing markverð fyrir það sem koma skal á keppnistíðinni í ár mætti segja að innbyrðis staða toppliðanna hafi lítið sem ekkert breyst milli ára. Hafa ber þó í huga að um dagana hafa nánast engin líkindi verið með kappakstrinum í Melbourne og mótunum sem á eftir hafa fylgt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert