Með hjálm til heiðurs Häkkinen

Valtteri Bottas mun skarta sérstaklega hönnuðum hjálmi í Mónakókappakstrinum á sunnudag. Gerir hann það til heiðurs ráðgjafa sínum og umboðsmanni, Mika Häkkinen.

Häkkinen fór með sigur af hólmi í Mónakó fyrir 20 árum, eða 1998 en á þeirri keppnistíð vann hann sinn fyrri heimsmeistaratitil ökumanna af tveimur.
 
„Hann vann kappaksturinn hér fyrir nákvæmlega 20 árum og vann titilinn líka,“ segir Bottas. „Ég vildi því heiðra þessa minningu, ég ber virðingu fyrir honum sem ökumanni, sem persónu og mér hefur alltaf mikið til hjálmshönnunar hans koma,“ segir Bottas en finnsku fánalitirnir voru ráðandi á hjálm Häkkinens.

Häkkinen dróg sig í hlé árið 2001 eftir að hafa keppt í formúlu-1 frá árinu 1993, fyrst fyror Lotus og síðan McLaren.

Ökumenn eiga það stundum til að skarta sérstökum hjálmi í Mónakókappakstrinum. Margir þeirra hafa verið með hönnun keppnishjálma fyrri meistara. Í nánustu þátíð ók Kimi Räikkönen með hjálmhönnun breska kappakstursmannsins James Hunt.

Þá tileinkaði  Jean-Eric Vergne landa sínum Francois Cevert hjálm sinn árið 2013, en Cevert var uppi á áttunda áratug nýliðinnar aldar. Sebastian Vettel hefur nokkrum sinnum birst með sérstakan tileinkunarhjálm í furstadæminu  og sænski ökumaðurinn Marcus Ericsson heiðraði landa sinnum og fyrrum meistara, Ronnie Peterson, með hjálmi í litum hans.

Loks hafa bæði Stoffel Vandoorne hjá McLaren og Brendon Hartley hjá Toro Rosso kynnt sérhannaða hjálma með Mónakóþema fyrir kappakstur helgarinnar. Þá skrýðist Charles Leclerc hjálmi sem líkir eftir hjálmi látins föður síns, Herve Leclerc, og áletrun í minningu náins fjölskylduvinar, Jules Bianchi, sem lést fyrir þremur árum af völdum áverka í slysi í japanska kappakstrinum í Suzuka 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert