Eldskírn í Le Castellet

Fyrstu æfingu keppnishelgar franska kappakstursins var að ljúka í þessu og það með miklum látum. Á síðustu mínútunni flaug Sauberbíll Marcus Ericsson á mikilli ferð út úr beygju og skall af afli á öryggisvegg. Braust út eldur sem logaði dável áður en mannafli barst til að ráða niðurlögum hans.

Ericsson hinn sænski virtist sleppa ómeiddur en efalítið ögn vankaður því höggið var þungt er bíllinn skall þversum á veggnum. Tók það hann nokkra stund að klifra upp úr brakinu en ljóst er af eldhafinu að bíllinn hefur laskast mjög.

Annars óku ökumenn Mercedes hraðast, Lewis Hamilton setti besta tímann og Valtteri Bottas þann næstbesta. Voru þeir með nýjar vélar en Mercedes hefur ekki vilja segja hvort um sé að ræða uppfærðar vélar eða ný eintök af sömu vél og notast var við framan af keppnistíðinni. Sama vél var í bílum sem kaupa vélar af Mercedes.

Daniel Ricciardo á Red Bull hafði forystu fram undir miðbik æfingarinnar en þá létu Mercedesmenn til sín taka og tóku toppsætin.

Í sætum fjögur til tíu - í þessari röð - urðu  Kimi Räikkönen og Sebastian Vettel á Ferrari,  Romain Grosjean á Haas, Max Verstappen á Red Bull, Pierre Gasly á Toro Rosso, Sergio Perez á Force India og Kevin Magnussen á Haas en hann var 1,9 sekúndum lengur með hringinn en Hamilton.

Sömuleiðis munaði miklu á Hamilton og ökumönnum Ferrari; Räikkönen var 0,8 sekúndum lengur með hringinn og Vettel 1,0 sekúndu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert