Gasly í stað Ricciardo

Pierre Gasly mun keppa fyrir Red Bull liðið á næsta ári og tekur sætið sem Daniel Ricciardo yfirgefur við vertíðarlok.

Gasly hinn franski hefur ekið fyrir Toro Rosso, dótturlið Red Bull.  Hann verður liðsfélagi Max Verstappen á næsta ári.

Gasly er aðeins á sinni fyrstu heilu keppnistíð í formúlu-1. Hann verður arftaki Ricciardo sem ákvað að ráða sig til Renault fremur en framlengja samning við Red Bull, eins og honum stóð til boða.

Gasly er 22 ára og gekk til liðs við þróunarverkefni fyrir unga ökumenn hjá Red Bull árið 2013. Hann keppti í GP2-formúlunni árið 2014 og varð meistari í þeirri formúlu árið 2016, hafði betur í keppni um titilinn við liðsfélaga sinn Antonio Giovinazzi sem er þróunarökumaður hjá Sauber og Ferrari.

Frakkinn ungi hefur vakið athygli í ár með sínum besta árangri, fjórða sætinu í kappakstrinum í Barein. Hann hefur aukinheldur skorað 26 af 28 stigum sem Toro Rosso hefur unnið það sem af er keppnistíðinni í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert