Hamilton stendur vel að vígi

Þungbúið var í Austin í Texas er Lewis Hamilton vann …
Þungbúið var í Austin í Texas er Lewis Hamilton vann ráspólinn. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes stendur einkar vel að vígi í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna eftir að hafa landað ráspól bandaríska kappakstursins rétt í þessu. Sebastian Vettel á Ferrari varð annar en fellur niður í fimmta sæti vegna akstursvítis.

Slagurinn í lokalotu tímatökunnar milli ökumanna Mercedes og Ferrari var einkar jafn og spennandi. Eitt augnablik í blálokin sat Kimi Räikkönen á Ferrari á pólnum en rétt á eftir komu Hamilton og Vettel og komust fram úr.

Var Hamilton 61 þúsundasta úr sekúndu á undan Vettel og millli ökumanna Ferrari voru aðeins níu þúsundustu úr sekúndu. Bottas var hins vegar tæplega 0,4 sekúndur á eftir landa sínum og hreppti fjórða sætið.

Daniel Ricciardo á Red Bull varð fimmti en var 1,3 sekúndum lengur með hringinn en Hamilton.

Í sætum sex til tíu urðu - í þessari röð - Esteban Ocon á Force India, Nico Hülkenberg á Renault, Romain Grosjean á Haas,  Charles Leclerc á Sauber og Sergio Perez á Force India.

Max Verstappen á Red Bull varð í aðeins sextánda sæti en í fyrstu  lotu tímatökunnar braut hann stífu í fjöðrunarbúnaði með ítrekuðum harkalegum akstri upp á og yfir beygjubríkur. Vegna viðgerða gat hann ekkert ekið í annarri lotu.

Akstri í henni slepptu einnig ökumenn Toro Rosso, Pierre Gasly og Brendon Hartley, sem dæmast á öftustu ráslínu vegna vélbúnaðarskipta.

Lewis Hamilton fagnar sigri í keppninni um ráspólinn í Austin …
Lewis Hamilton fagnar sigri í keppninni um ráspólinn í Austin í Texas í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert