Schumacher breytti keppnisáætlun og tókst að halda Alonso fyrir aftan sig

Michael Schumacher í fararbroddi ökumanna á Imolabrautinni í dag.
Michael Schumacher í fararbroddi ökumanna á Imolabrautinni í dag. AP

Michael Schumacher á Ferrari var í þessu að vinna sigur í San Marónó-kappakstrinum í Imolabrautinni á Ítalíu, eftir spennandi keppni við Fernando Alonso á Renault. Þriðji varð Juan Pablo Montoya á McLaren.

Heppnaðist það bragð Schumacher að breyta keppnisáætlun eftir að út í keppni var komið, hægði hann ferðina til að spara bensín en tókst samt að halda Alonso fyrir aftan sig eftir að Renaultþórinn dró hann uppi, enda útilokað að taka fram úr í Imolabrautinni.

Seinni helming kappakstursins var Alonso alveg við gírkassa Schumacher og munaði venjulega ekki nema 0,3-0,5 sekúndum á þeim. Allt þar til Alonso hægði ferðina síðustu þrjá hringina og gaf möguleikann á sigri frá sér.

Um tíma leit út fyrir að Schumacher ætti við einhverja bilun í bíl sínum að etja er hann dró úr ferðinni. Alonso nálgaðist óðfluga og setti hraðasta hring mótsins, 1:24.569 mín., auk þess sem hann átti bestu tímana á öllum þremur brautarköflunum. En er Alonso hafði dregið forvera sinn á heimsmeistarastóli uppi jók Schumacher ferðina á ný og varðist öllum tilraunum núverandi meistara til að komast fram úr.

Sigurinn er hinn sjöundi sem Schumacher vinnur í San Marínókappakstrinum. Honum var vel fagnað er hann ók yfir marklínuna og einnig er hann kom í lokahöfn í lok innhrings, enda sérlegur sendiherra San Marínóríkis.

Er þetta fyrsti alvörusigur hans frá í hitteðfyrra ef undan er skilinn sigur hans í bandaríska kappakstrinum í Indianapolis í fyrra sem aðeins þrjú lið tóku þátt í.

Úrslitin í San Marínó-kappakstrinum

Úrslitin í Staðan í stigakeppni bílsmiða og ökuþóra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert