Viðar með þrennu fyrir Vålerenga

Viðar Örn Kjartansson skoraði þrennu.
Viðar Örn Kjartansson skoraði þrennu. Ljósmynd/vif-fotball.no

Viðar Örn Kjartansson hélt uppteknum hætti með Óslóarliðinu Vålerenga og skoraði þrennu í dag þegar liðið vann auðveldan útisigur á D-deildarliðinu Nordstrand, 5:0, í 1. umferð norsku bikarkeppninni í knattspyrnu.

Viðar skoraði þrjú síðustu mörkin, eitt þeirra úr vítaspyrnu, en hann hefur verið á skotskónum með liðinu í fyrstu umferðum úrvalsdeildarinnar. Hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með 4 mörk í fyrstu fjórum leikjunum. Mörkin á tímabilinu eru því orðin sjö samtals hjá Selfyssingnum sem kom til liðs við Vålerenga frá Fylki í vetur.

Guðmundur Þórarinsson og Þórarinn Ingi Valdimarsson gerðu sitt markið hvor fyrir Sarpsborg sem burstaði nágrannaliðið Sarpsborg FK, 11:0, í bikarnum í dag.

Matthías Vilhjálmsson var fyrirliði Start og skoraði eitt marka liðsins sem vann Höllen á útivelli, 4:0.

Hannes Þór Halldórsson og samherjar í Sandnes Ulf voru mjög óvænt slegnir út af C-deildarliðinu Sola sem vann þá 1:0. Önnur úrvalsdeildarlið komust áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert