Alfreð fagnaði sigri í frumrauninni

Alfreð Finnbogason mundar skotfótinn í leiknum gegn Aberdeen í kvöld.
Alfreð Finnbogason mundar skotfótinn í leiknum gegn Aberdeen í kvöld. Ljósmynd/Rubén Plaza

Alfreð Finnbogason lék sinn fyrsta mótsleik fyrir Real Sociedad í kvöld þegar liðið vann Aberdeen 2:0 í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu og átti stóran þátt í fyrra markinu.

Heimamenn komust yfir á 53. mínútu þegar David Zurutuza fylgdi á eftir skoti Alfreðs sem var varið. Varamaðurinn Sergio Canales bætti svo við öðru marki skömmu eftir að hafa komið inná sem varamaður. Alfreð lék allan leikinn.

Liðin mætast að nýju eftir viku í Skotlandi.

Ragnar og félagar í góðum málum

Ragnar Sigurðsson og félagar í Krasnodar frá Rússlandi eru í góðum málum en þeir unnu Diósgyör frá Ungverjalandi 5:1 á útivelli. Ragnar lék allan leikinn. Zulte -Waregem, lið Ólafs Inga Skúlasonar, tapaði hins vegar illa á heimavelli fyrir Shakhtyor Soligorsk frá Hvíta-Rússlandi, 5:2. Ólafur Ingi lék sömuleiðis allan leikinn.

Hjálmar Jónsson lék allan leikinn fyrir IFK Gautaborg sem tapaði á heimavelli fyrir Rio Ave frá Portúgal, 1:0. Kristinn Jónsson lék sömuleiðis fyrir Brommapojkarna sem töpuðu 3:0 á heimavelli fyrir Torino eftir að hafa misst fyrirliða sinn af velli með rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks.

Björn Bergmann Sigurðarson var ekki með Molde sem náði góðu 1:1-jafntefli á útivelli gegn Zorya í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert