Platini: Hef ekki áhuga á að breyta til

Gianni Infantino, framkvæmdastjóri, og Michel Platini, forseti UEFA, á fréttamannafundinum …
Gianni Infantino, framkvæmdastjóri, og Michel Platini, forseti UEFA, á fréttamannafundinum í Mónakó í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

"Ég vil ljúka þeim verkum sem ég hóf," sagði Michel Platini, forseti UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, þegar hann tilkynnti formlega í Mónakó í morgun að hann hygðist bjóða sig fram sem forseta sambandsins á ný á næsta ári, en myndi ekki sækjast eftir formennsku hjá FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, að svo stöddu.

"Eins og þið hafið séð, vinnum við að nokkrum mjög mikilvægum verkefnum hjá UEFA og ég vil fylgja þeim í höfn áður en ég fer að velta því fyrir mér að skipta um starfsvettvang. Þetta er ekki rétti tíminn, hvað mig varðar," sagði Platini á fréttamannafundinum sem mbl.is sat í Mónakó, og vitnaði m.a. til verkefnisins um fjárhagslega háttvísi (Financial Fair Play), Evrópukeppni karla árið 2020 sem verður leikin í 13 borgum víðsvegar um Evrópu, baráttunnar við kynþáttafordóma og hverskyns mismunun, "fótboltavikunnar" sem fer af stað með undankeppni EM karla 2016 í næsta mánuði og sérstaks styrktarsjóðs barna sem UEFA er að setja á laggirnar.

"Ég vil ljúka því sem ég hóf, að sumu leyti á sama hátt og ég gerði sem leikmaður. Ég lauk ávallt mínum samningum, stóð við mínar skuldbindingar, og þetta er ekkert öðruvísi. Ég vil standa við allt mitt hjá UEFA. Og ef knattspyrnusamböndin vilja það líka, eins og mér sýnist að þau geri, þá á ég enn eftir þó nokkur ár í þessu embætti," sagði Frakkinn sem varð 59 ára gamall í sumar og var kjörinn besti knattspyrnumaður heims árin 1983, 1984 og 1985.

Platini kvaðst hafa velt þessari ákvörðun lengi fyrir sér. "Ég hugsaði mikið um þetta en tókst aldrei að sannfæra sjálfan mig um að ég yrði að fara og taka þátt í þessu kjöri hjá FIFA. Svo einfalt er þetta. Ég ákvað eina ferðina enn að láta hjartað ráða, ég lét ástríðuna ráða."

Hann fékk margar spurningar um hvort hann hefði ekki þorað að fara gegn Sepp Blatter, sitjandi forseta FIFA, sem gefur kost á sér eina ferðina enn á næsta ári. Það aftók Platini með öllu, kvaðst hafa sýnt og sannað á undanförnum árum að sig skorti ekki kjark, en hann hefði bara ekki haft áhuga á að breyta til.

Platini kvaðst hafa sagt Blatter það sjálfur, augliti til auglitis, að hann styddi hann ekki lengur, og hann teldi að Blatter ætti að stíga til hliðar, en það yrði að vera hlutverk einhvers annars að taka við af Svisslendingnum.

"Evrópskur fótbolti er mitt áhugamál og því vil ég sinna áfram," sagði Michel Platini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert