Lærisveinar Þorsteins í undanúrslitin

Þorsteinn Gunnarsson er þjálfari Þróttar í Vogum.
Þorsteinn Gunnarsson er þjálfari Þróttar í Vogum. Ljósmynd/Throttur.net

Síðari leikirnir í átta liða úrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu voru spilaðir í kvöld og komust Kári frá Akranesi, Þróttur úr Vogum, KFS frá Vestmannaeyjum og Álftanes áfram í undanúrslitin þar sem spilað verður um tvö sæti í 3. deildinni.

Kári, undir stjórn Sigurðar Jónssonar, hafði betur á móti Hlíðarendaliðinu KH, 4:2, og samanlagt 8:2. Kári mætir KFS frá Vestmannaeyjum í undanúrslitunum. KFS tapaði fyrir Létti, 2:1, á heimavelli en liðið hafði áður unnið, 2:0, og vann einvígið, 3:2.

Þróttur Vogum og Álftanes mætast í hinni undanúrslitaviðureigninni. Álftanes hafði betur á móti Vængjum Júpiters, 3.1, og samanlagt, 4:2. Þróttur Vogum tapaði fyrir KFG, 2:1, en vann einvígið samanlagt, 3:2. Staðan eftir venjulegan leiktíma var, 2:0, en Þróttararnir úr Vogum tryggðu sér sæti í undanúrslitunum þegar þeim tókst að minnka muninn undir lokin. Kristján Steinn Magnússon skoraði markið mikilvæga á 109. mínútu leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert