Totti ánægður með „skotið“ frá Man. City

Francesco Totti skorar hér gegn Manchester City í gærkvöld.
Francesco Totti skorar hér gegn Manchester City í gærkvöld. AFP

Francesco Totti, leikmaður Roma, segir að skilaboð af Twitter-síðu Manchester City hafi hjálpað sér í aðdraganda leiks liðanna í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld, þar sem hinn 38 ára gamli Ítali varð elsti leikmaðurinn til að skora í keppninni.

Á Twitter-síðu City-manna voru birt skilaboð til Roma í gær um að þeir hlökkuðu til að taka á móti ítalska liðinu, og ekki síst Totti, en bættu svo við að hann hefði nú aldrei skorað á Englandi. Í samtali við Gazzetta dello Sport eftir 1:1-jafnteflið í gær sagði Totti þetta skot Englendinganna hafa hjálpað sér.

„Tístið frá City? Það gerði ekkert nema að hjálpa mér. Þetta var fallegt mark og góð frammistaða,“ sagði Totti.

„Mig langaði virkilega til að skora því að ég var ekki búinn að finna netmöskvana á þessari leiktíð. Umfram allt er ég samt bara ánægður með liðið mitt því að við sýndum mikinn styrk,“ sagði Totti.

Francesco Totti fagnar markinu.
Francesco Totti fagnar markinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert