Ánægðir með Hólmar Örn

Hólmar Örn Eyjólfsson í búningi Rosenborgar.
Hólmar Örn Eyjólfsson í búningi Rosenborgar. Ljósmynd/rbk.no

Hólmar Örm Eyjólfsson segist vera opinn fyrir því að framlengja samning sinn við norska úrvalsdeildarliðið Rosenborg en Hólmar gerði eins árs samning við félagið þegar hann gekk í raðir þess í ágúst.

Hólmar hefur verið í byrjunarliði Rosenborg í síðustu fimm leikjum af sex og er að koma sér fyrir sem byrjunarliðsmaður í hjarta varnarinnar hjá félaginu.

„Hólmar hefur staðið sig vel í sínu hlutverki í miðvarðarstöðunni. Að auki er hann dásamlegur drengur sem hefur gott viðhorf svo við erum mjög ánægðir með hann,“ segir Erik Hoftun, íþróttastjóri Rosenborg, í viðtali við norska blaðið Adressavisen.

„Ég er mjög ánægður. Ég er að kynnast félaginu betur og betur og fólkinu hérna. Ég hef spilað mikið og hef bara staðið mig vel,“ segir Hólmar Örn sem segist vera opinn fyrir því að vera áfram hjá Rosenborg. „Þetta er stór klúbbur sem gefur mér tækifæri til að spila í Evrópukeppninni og vonandi í Meistaradeildinni svo af hverju ekki að vera lengur hér?“ segir Hólmar Örn.

Rosenborg er í þriðja sæti í norsku úrvalsdeildinni með 51 stig, Odd er með 55 í öðru sæti en Molde trónir á toppnum með 65 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert