Kolbeinn fær aðra tilraun til að skora á Camp Nou

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. AFP

Kolbeinn Sigþórsson verður í eldlínunni með Ajax á Camp Nou í Barcelona í kvöld þegar Hollandsmeistararnir etja kappi við Barcelona í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Í fyrra þegar liðin áttust við á sama stað vann Barcelona öruggan sigur, 4:0, þar sem Lionel Messi skoraði þrennu.

Kolbeinn fékk í þeim gullið tækifæri til að skora. Hann tók vítaspyrnu í stöðunni 4:0 en Victor Valdes varði spyrnu hans.

Ajax hefur gert jafntefli í báðum leikjum sínum í riðlinum, gegn Paris SG á heimavelli og APOEL á útivelli. Barcelona byrjaði á því að vinna nauman 1:0 sigur á APOEL en tapaði fyrir Paris SG í síðustu umferð og það er eini tapleikur Börsunga á leiktíðinni. Þess má geta að þjálfarar liðanna, Luis Enrique og Frank de Boer, léku saman með Barcelona á árunum 1999 til 2003.

Leikið fyrir luktum dyrum í Moskvu

Englandsmeistarar Manchester City sækja CSKA Moskva heim en leikið verður fyrir luktum dyrum í Moskvu þar sem UEFA refsaði félaginu fyrir kynþáttaníð.

„Manchester City er sigurstranglegt. Ekki bara í þessum leik heldur í Meistaradeildinni,“ sagði Leonid Slutsky, þjálfari CSKA, sem sá sína menn tapa fyrir Sölva Geir Ottesen og félögum hans í Ural um nýliðna helgi. City má ekki við því að misstíga sig en liðið hefur aðeins innbyrt eitt stig úr leikjunum tveimur í Meistaradeildinni. CSKA er hins vegar án stiga.

Toppslagur Roma og Bayern

Það er stórleikur á ólympíuleikvanginum í Róm þar sem Roma tekur á móti þýsku meisturunum í Bayern München. Roma hefur 4 stig í öðru sæti en Bæjarar eru með 6 stig í efsta sæti. Bæjarar hafa ekki verið á skotskónum í fyrstu tveimur leikjum sínum í Meistaradeildinni en þeir lögðu Manchester City og CSKA með minnsta mun, 1:0. Þeir voru hins vegar í markastuði heima fyrir um nýliðna helgi en þeir burstuðu Werder Bremen, 6:0.

Á Stamford Bridge í Lundúnum fær Chelsea lið Maribor frá Slóveníu í heimsókn og þar ættu lærisveinar José Mourinho að landa tveimur stigum en þeir hafa verið á miklu skriði í ensku úrvalsdeildinni og hafa leikið allra liða best. Chelsea verður án framherjans Diego Costa en það ætti ekki að koma að sök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert