Kristinn Steindórs til Þýskalands?

Kristinn Steindórsson heilsar upp á menn fyrir leik með Halmstad.
Kristinn Steindórsson heilsar upp á menn fyrir leik með Halmstad. Ljósmynd/Gunnar Elíson

Knattspyrnumaðurinn Kristinn Steindórsson er staddur í Frankfurt í Þýskalandi en þangað var honum boðið til að skoða aðstæður hjá þýska B-deildarliðinu FSV Frankfurt.

Kristinn átti frábært tímabil með Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili og var næstmarkahæstur í liðinu með 8 mörk. Hann er nú samningslaus en nýráðinn þjálfari Halmstad, Janne Jönsson, hefur mikinn áhuga á að halda Kristni hjá félaginu. Það er þó mun líklegra að Kristinn reyni fyrir sér á öðrum vígstöðvum.

„Ég er bara að skoða aðstæður hér og tók aðeins þátt í tveimur æfingum, bara svona til að sjá hvernig þetta er. Ég flýg aftur heim á morgun og svo sjáum við hvað verður,“ sagði Kristinn, sem býst við tilboði frá þýska félaginu.

„Miðað við hvernig þeir töluðu áður en þeir buðu mér hingað þá býst ég við því. Þeir voru alla vega mjög jákvæðir. Það er búið að fylgjast með mér og þeir vita alveg hvernig leikmaður ég er,“ sagði Kristinn, og hann getur vel hugsað sér að ganga til liðs við félagið ef samningar nást.

Langar að prófa eitthvað nýtt

„Þetta er búið að vera mjög fínt hingað til. Næstefsta deildin í Þýskalandi er mjög sterk og þetta lið hefur verið í henni í sjö ár, svo það er orðið nokkuð stabílt. Þetta lítur vel út,“ sagði Kristinn sem hefur úr fleiri möguleikum að velja en vill ekki ræða þá nánar. Ólíklegt er hins vegar að hann semji aftur við Halmstad.

„Maður er að leita að næsta skrefi og langar að prófa eitthvað nýtt. Ég vonast til að fá mín mál á hreint fljótlega,“ sagði Kristinn.

FSV Frankfurt er í 13. sæti þýsku 2. deildarinnar af 18 liðum, með 15 stig eftir 14 umferðir. Stærsta félagið í Frankfurt er hins vegar Eintracht Frankfurt.

Kristinn er 24 ára gamall, uppalinn hjá Breiðabliki og skoraði 11 mörk í efstu deild á sínu síðasta tímabili hérlendis, árið 2011. Þá um veturinn samdi hann við Halmstad til þriggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert