„Er áhugi af beggja hálfu“

Hannes Þór Halldórsson
Hannes Þór Halldórsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður í knattspyrnu og leikmaður norska B-deildarliðsins Sandnes Ulf hefur verið við æfingar hjá enska B-deildarliðinu Wigan frá því á sunnudaginn en hann heldur aftur Noregs á morgun.

,,Þetta er búin að vera mjög góð heimsókn sem var virkilega ánægjuleg. Ég fór á nokkrar æfingar og fékk mjög jákvæð viðbrögð frá félaginu þannig að það er áhugi af beggja hálfu. Það er ekki víst að tímasetningin passi núna og ég skipti yfir til félagsins í þessum glugga en það er þó ekki útilokað.

Wigan er með tvo flotta markverði og það þarf eitthvað að hreyfast í þeirra markmannsmálum ef ég á að fara til félagsins og skiptin þyrftu að henta mér og mínum knattspyrnuferli,“ sagði Hannes Þór við mbl.is.

Scott Carson er aðalmarkvörður liðsins en hann á 4 leiki að baki með enska landsliðinu og hefur spilað liðum á borð við Liverpool, Leeds og Aston Villa. Varamarkvörður Wigan er Ali Al-Habsi landsliðsmarkvörður Óman sem lék áður með Lyn í Noregi og Bolton.

 ,,Það er komið ákveðið samband á milli mín og Wigan. Ég veit að félagið er áhugasamt um að fá mig á einhverjum tímapunkti en hvenær eða hvort það gerist veit maður auðvitað aldrei,“ sagði Hannes Þór, sem féll með Sandnes Ulf á síðustu leiktíð.

 Hannes átti afar gott tímabil með liðinu og var valinn besti leikmaður þess og þá hefur hann átt frábæru gengi að fagna með íslenska landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert