Byrjar Kristinn í verkfalli?

Kristinn Steindórsson.
Kristinn Steindórsson. Ljósmynd/thecrew.com

Kristinn Steindórsson á að spila með Columbus Crew gegn Houston Dynamo á útivelli í Texas á laugardagskvöldið kemur, í fyrstu umferð bandarísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu. En nú eru blikur á lofti og ekki víst að deildin hefjist um komandi helgi, eins og til stóð.

Leikmannasamtök deildarinnar og stjórn MLS hafa enn ekki komist að samkomulagi um nýjan launasamning og ESPN sagði í gær að enn væri algjörlega óljóst hvort flautað yrði til leiks á réttum tíma.

Auk launanna er hart deilt um frelsi leikmannanna en þeir eru samningsbundnir deildinni og hafa ekki sama rétt og kollegar þeirra t.d. í Evrópu. Því vilja þeir fá breytt.

Meistarar LA Galaxy eiga að taka á móti Chicago Fire í opnunarleiknum á föstudagskvöldið, en þann dag rennur einmitt út sá frestur sem leikmannasamtökin gáfu til að ná samkomulagi. Sex leikir eru svo á dagskrá á laugardagskvöldinu.

Samkvæmt ESPN ganga viðræðurnar hægt, og þó samningar tækjust á síðustu stundu
gæti það verið of seint til að koma í veg fyrir að í það minnsta opnunarleiknum væri frestað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert