Eggert og Baldur í undanúrslitin

Eggert Gunnþór Jónsson.
Eggert Gunnþór Jónsson.

Eggert Gunnþór Jónsson og Baldur Sigurðsson komust í kvöld í undanúrslit dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu með liðum sínum, Vestsjælland og SönderjyskE.

Vestsjælland er komið þangað í fyrsta sinn í sögunni eftir sigur á B-deildarliðinu Brönshöj á útivelli, 2:1. Eggert lék allan leikinn á miðjunni hjá Vestursjálendingum og Frederik Schram var varamarkvörður liðsins.

SönderjyskE vann Bröndby í líflegum og framlengdum leik, 4:2, á heimavelli sínum í Haderslev þar sem þrjú rauð spjöld fóru á loft, tvö þeirra á gestina frá Kaupmannahöfn.

Baldur lék fyrri hálfleikinn með SönderjyskE og Hólmbert Aron Friðjónsson lék seinni hluta framlengingarinnar með Bröndby.

Þriðja Íslendingaliðið mun bætast í hópinn annað kvöld því FC Köbenhavn og Randers, með samtals fjóra Íslendinga innanborðs, mætast annað kvöld. Loks verður eitt lið án íslenskra leikmanna í undanúrslitum því Esbjerg og AaB er fjórða viðureign átta liða úrslitanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert