Warner gaf sig fram við lögreglu

Jack Warner í ræðustóli hjá FIFA fyrir nokkrum árum.
Jack Warner í ræðustóli hjá FIFA fyrir nokkrum árum. AFP

Jack Warner frá Trínidad og Tóbagó, sem áður var einn af varaforsetum FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, gaf sig fram við lögregluyfirvöld í Port-of-Spain, höfuðborg landsins, í dag.

Bandarísk yfirvöld gáfu í dag út handtökuskipun á hendur Warner, vegna tengsla hans við mútu- og spillingarmál FIFA, en sjö voru handteknir vegna þeirra í Sviss í morgun.

Warner mætti á lögreglustöð ásamt lögfræðingi, setti ekki fram neinar kröfur og á að mæta fyrir rétt 12. júlí.

Warner, sem er 72 ára gamall, var forseti CONCACAF, knattspyrnusambands Norður- og Mið-Ameríku, frá 1990 til 2011 og átti sæti í framkvæmdastjórn FIFA frá 1983 til 2011. Hann var þá rekinn úr öllum trúnaðarstörfum á vegum sambandsins. 

Hann er sakaður um að hafa þegið um 10 milljónir dollara frá ríkisstjórn Suður-Afríku vegna heimsmeistaramótsins sem fór fram í landinu árið 2010. fyrir stuðning sinn við að landið fengi gestgjafahlutverk keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert