Hverjir kjósa Blatter?

Sepp Blatter verður sennilega áfram forseti FIFA.
Sepp Blatter verður sennilega áfram forseti FIFA. AFP

Í dag verður kosið á milli Sepp Blatter og jórdanska prinsins Ali bin al-Hussein í embætti forseta FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, á ársþingi sambandsins í Zürich.

Búast má við að niðurstöður kosninganna liggi fyrir um kl. 15 í dag en það veltur þó á því hvernig gengur að halda dagskrá þingsins.

Alls eru 209 knattspyrnusambönd með atkvæðisrétt á þinginu. Hvert þeirra hefur sama vægi. Hljóti annar frambjóðendanna 2/3 hluta atkvæða, eða 140 atkvæði, í 1. umferð verður sá hinn sami lýstur sigurvegari. Verði mjórra á munum fer fram 2. umferð kosninga þar sem dugar að fá yfir helming atkvæða.

Blatter hefur verið forseti í 17 ár og á stuðning vísan víða þó að einhverjir hafi skipt um skoðun eftir atburði liðinna daga. Atkvæðin 209 skiptast svona eftir heimsálfum:

Afríka: 54 atkvæði
Knattspyrnusamband Afríku sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtudag þar sem því var mótmælt að kosningum yrði frestað og stuðningur þess við Blatter ítrekaður.

Asía: 46 atkvæði
Þó að Ali sé úr Asíu er það Blatter sem nýtur stuðnings í álfunni. Knattspyrnusamband Asíu sagði í vikunni að það teldi handtökur stjórnarmanna FIFA ekki ástæðu til að breyta afstöðu sinni. Þó hefur Frank Lowry, formaður knattspyrnusambands Ástralíu (sem er aðili að asíska sambandinu), sagt að hann ætli að kjósa Ali enda sé þörf á breytingum hjá FIFA.

Suður-Ameríka: 10 atkvæði
Heimsálfan með fæst atkvæði. Búist er við að öll tíu samböndin kjósi Blatter.

Eyjaálfa: 11 atkvæði
Í janúar sagði í yfirlýsingu Knattspyrnusambands Eyjaálfu að öll 11 samböndin myndu kjósa Blatter. Fulltrúi Nýja-Sjálands sagði hins vegar í dag að hann hygðist styðja Ali.

Evrópa: 53 atkvæði
Knattspyrnusamband Íslands og langflestir aðrir aðilar Knattspyrnusambands Evrópu munu kjósa Ali. Rússland og Spánn eru þó sögð styðja Blatter.

Norður- og mið-ameríka: 35 atkvæði
Búist er við að flestir meðlima kjósi Blatter en Bandaríkin og Kanada ætla að kjósa Ali. Osiris Guzman, forseti dóminíska sambandsins, líkti Blatter við menn á borð við Móses, Martin Luther King, Jesú og Nelsen Mandela á fundi Knattspyrnusambands álfunnar í apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert