Höfnuðu tilboði frá Kaiserslautern í Jón Daða

Jón Daði Böðvarsson í leik gegn Hollendingum.
Jón Daði Böðvarsson í leik gegn Hollendingum. mbl.is/Ómar

Forráðamenn norska knattspyrnuliðsins Viking hafa hafnað tilboði frá þýska B-deildarliðinu Kaiserslautern í landsliðsmanninn Jón Daða Böðvarsson.

„Það er rétt að við höfum hafnað tilboði í Böðvarsson. Við getum ekki misst hann á sama tíma og Veton Berisha er farinn frá félaginu,“ segir Henning Johannessen, framkvæmdastjóri Viking, við norska blaðið Stavanger Aftenblad.

Jón Daði hefur verið úti og inni í liði Viking á tímabilinu. Hann hefur komið við sögu í 13 leikjum í deildinni á tímabilinu; skorað fjögur mörk og átt fimm stoðsendingar.

Samningur Jóns Daða við Viking rennur út eftir tímabilið og hefur hann ekki farið leynt með það að hann vill róa á önnur mið þegar samningurinn rennur út.

Uppfært kl.11.30

Nú er komið upp úr kafinu að það var þýska B-deildarliðið Kaiseralautern sem gerði Viking tilboð í Jón Daða en félagið hafnaði í fjórða sæti í deildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert