Messi segist verðskulda titil

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Lionel Messi og félagar í Argentínu mæta Síle í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar í knattspyrnu í kvöld, en Argentína freistar þess að vinna sinn fyrsta stóra titil í 22 ár.

„Þessi kynslóð verðskuldar að vinna titil með landsliðinu. Það mundi skipta okkur svo miklu máli að vinna núna eftir heimsmeistaramótið í fyrra,“ segir Messi, en Argentína tapaði í úrslitaleiknum fyrir Þjóðverjum á HM í Brasilíu í fyrra.

Þrátt fyrir að hafa stórar stjörnur innanborðs eins og Sergio Aguero, Javier Mascherano, Angel Di Maria, Carlos Tevez, Gonzalo Higuain og Messi hefur titlaþurrðin verið mikil hjá Argentínu.

„Ef þessi kynslóð af leikmönnum vinnur ekkert munum við sjá eftir því svo lengi sem við lifum,“ bætti Aguero við.

Úrslitaleikurinn fer fram í kvöld, en með sigri getur Argentína jafnað Úrúgvæ með fjórtán titla í þessari keppni. Síle leitar hins vegar að sínum fyrsta sigri, en keppnin fer nú fram þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert