Blatter á að fá Nóbelsverðlaun

Sepp Blatter og Vladimir Pútín.
Sepp Blatter og Vladimir Pútín. AFP

Vladimir Pútín forseti Rússlands segir að Sepp Blatter forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, eigi sjálf Nóbelsverðlaunin skilin fyrir framgöngu sína hjá samtökunum sem hafa engu að síður verið uppvís af gríðarmikilli spillingu eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna mánuði.

„Fólk eins og herra Blatter og aðrir formenn stórra alþjóðlegra íþróttasamtaka, eða Ólympíuleikanna, eiga skilið sérstaka viðurkenningu. Ef það er einhver sem á Nóbelsverðlaunin skilið þá er það þetta fólk,“ sagði Pútín.

Blatter tilkynnti um að hann myndi stíga til hliðar sem forseti FIFA þann 2. júní síðastliðinn í kjölfar þess að sjö starfsmenn FIFA og 14 aðrir voru handteknir vegna spillingar.

Blatter segist sjálfur hafa hreina samvisku og sagði að hann myndi gegna embætti forseta FIFA þangað til í febrúar á næsta ári.

„Við vitum öll hvernig staðan er í kringum Blatter akkurat núna. Ég vil ekki fara í nein smáatriði en ég trúi ekki orði af því sem sagt er um hann varðandi spillingu,“ sagði Pútín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert