Rekinn fyrir að spila ekki eigandanum gegn Barcelona

Vladimir Romanov, fyrrum eigandi Hearts.
Vladimir Romanov, fyrrum eigandi Hearts. Wikipedia

Anatoly Korobochka, fyrrum knattspyrnustjóri Hearts í Skotlandi, greindi frá því í viðtali á dögunum að fyrrum eigandi félagsins, Vladimir Romanov, hafi rekið hann fyrir að spila honum ekki í vináttuleik gegn Barcelona.

Korobochka var látinn taka poka sinn árið 2007, en hann þjálfaði liðið þá ásamt Stephan Frail á undirbúningstímabilinu áður en hann var óvænt látinn fara.

Það var í raun ekkert svo óvænt þegar öll atriði málsins eru skoðuð. Hearts átti að spila vináttuleik gegn Barcelona fyrir framan 60 þúsund manns, leik sem Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður Fleetwood Town, spilaði, en eigandi Hearts vildi þá fá að spreyta sig í leiknum.

Draumur Romanov var að spila gegn Thierry Henry, Andrés Iniesta og félögum, en Korobochka hélt nú ekki og stuttu síðar var hann látinn fara.

„Við spiluðum gegn Barcelona í vináttuleik og það voru rúmlega 60 þúsund manns þarna. Þarna var Ronaldinho að toppa og Barcelona var óstöðvandi á þessum tíma,“ sagði Korobochka.

„Fyrir leikinn kom Romanov að mér og sagði mér að hann vildi spila. Hann vildi að ég myndi velja hann í liðið og honum var alvara með þessu.“

„Ég neitaði að velja hann og sagði honum að hann væri ekki í neinu leikformi og gæti því ekki spilað. Þá tjáði hann mér að ég myndi þá ekki þjálfa hérna mikið lengur og stuttu síðar var ég látinn taka pokann,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert