Hörður lánaður aftur til Cesena

Hörður Björgvin Magnússon í leik með Cesena.
Hörður Björgvin Magnússon í leik með Cesena. Heimasíða Cesena

Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður ítalska meistaraliðsins Juventus, mun leika með Cesena á komandi leiktíð en hann mun skrifa undir eins árs lánssamning við félagið á allra næstu dögum samkvæmt öruggum heimildum mbl.is.

Hörður Björgvin, sem er 22 ára gamall varnarmaður, lék upp alla yngri flokka með Fram en hann gerði eins árs lánssamning við Juventus í ársbyrjun 2011 og var svo formlega keyptur ári síðar.

Spezia, sem leikur í B-deildinni, keypti helmingshlut í Herði fyrir tveimur árum og var hann lánaður þangað í kjölfarið en hann lék 20 leiki með liðinu í deild. Juventus keypti hlut Spezia og framlengdi hann um leið samning sinn til ársins 2018.

Hann var lánaður til Cesena sem lék í A-deildinni á síðustu leiktíð þar sem hann lék 12 deildarleiki er liðið féll niður í B-deildina eftir að hafa hafnað í næst neðsta sæti.

Juventus hefur nú samþykkt að lána hann aftur til Cesena en lið frá Belgíu, Englandi, Frakklandi og Þýskalandi höfðu áhuga á að fá hann í sínar raðir.

Fabio Algeri, umboðsmaður Harðar, mun funda með forráðamönnum Cesena í dag til að ganga frá helstu atriðum og verður hann því formlega kynntur sem leikmaður félagsins um helgina.

Cesena er þegar búið að vinna fyrstu tvo leikina í ítalska bikarnum og hefur liðið því tryggt sér sæti í 32-liða úrslitum þar sem liðið mætir Torino á útivelli. Sigurvegarinn úr þeirri viðureign mætir síðan Juventus í 16-liða úrslitum, en B-deildin sjálf hefst 6. september þar sem liðið byrjar heima gegn Brescia.

Hörður Björgvin í leik með íslenska U21 árs landsliðinu.
Hörður Björgvin í leik með íslenska U21 árs landsliðinu. Golli / Kjartan Þorbergsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert