Van Persie: Auðvitað var ég vonsvikinn

Robin Van Persie.
Robin Van Persie. AFP

Hollenskir fjölmiðlar reikna með því að Robin van Persie vermi varamannabekk Hollendinga þegar þeir taka á móti Íslendingum í undankeppni Evrópumótsins á Amsterdam Arena á fimmtudagskvöldið.

Van Persie er ekki í góðri leikæfingu en tímabilið í Tyrklandi er nýbyrjað þar sem hann spilar með liði Fenerbache. Danny Blind nýr þjálfari hollenska landsliðsins lét það verða eitt sitt fyrsta verk þegar hann tók við liðinu að skipa Arjen Robben sem fyrirliða liðsins í stað Van Persie.

„Auðvitað var ég vonsvikinn en það er réttur þjálfarans að velja nýjan fyrirliða. Ég er þó feginn að vera  varafyrirliði liðsins,“ sagði Van Persie við fréttamenn eftir fyrstu æfingu hollenska landsliðsins fyrir leikinn mikilvæga gegn Íslendingum.

Hollenskir fjölmiðlar spá því að Klaas Jan Huntelaar, Arjen Robben og Memphis Depay muni spila í fremstu víglínu en Depay, sem gekk í raðir Manchester United í sumar, var ekki í leikmannahópi Hollendinga í fyrri leiknum sem Íslendingar höfðu betur í, 2:0.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert