Ítalir taka upp græna spjaldið

Giorgio Chiellini á ekki möguleika á að fá grænt spjald …
Giorgio Chiellini á ekki möguleika á að fá grænt spjald á þessari leiktíð. AFP

Dómarar í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu verða með nýjung á komandi leiktíð en græn spjöld verða í boði fyrir leikmenn sem sýna fram á íþróttamannslega hegðun í leikjum.

Eins og flestum ætti nú að vera kunnugt þá eru dómarar með tvö spjöld í vasa sínum í hverjum leik, en þar er boðið upp á bæði gul- og rauð spjöld.

Undanfarin ár hafa græn spjöld verið í boði í leikjum yngri flokka á Ítalíu, en þau er gefin fyrir góða hegðun á vellinum.

Samkvæmt frétt La Stampa þá hefur verið ákveðið að prufa spjöldin í B-deildinni á Ítalíu, en þau verða sjáanleg í fyrstu umferðinni sem hefst um helgina.

Því verður B-deildin notuð sem prufa fyrir stærri deildir en búist er við því að stærri deildir komi til með að taka upp sömu aðferðir á næstu árum.

Þeir leikmenn sem klára tímabilið með flest græn spjöld fá svo verðlaun á lokahófi deildarinnar í júní.

Sem dæmi þá geta leikmenn fengið græn spjöld fyrir að sparka boltanum úr leik er leikmaður liggur meiddur á vellinum auk þess sem græn spjöld verða í boði fyrir leikmenn sem viðurkenna dýfur í vítateig.

Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður Juventus, er á láni hjá Cesena sem leikur í B-deildinni og á hann því möguleika á að safna sér grænum spjöldum í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert