Vil burt frá þessu liði og úr þessum bæ

Jón Guðni Fjóluson.
Jón Guðni Fjóluson. Ljósmynd/gifsundsvall.se

Jón Guðni Fjóluson, leikmaður sænska knattspyrnuliðsins Sundsvall, sagði við Sportbladet eftir sigur liðsins á Gefle í úrvalsdeildinni í gær að hann vildi komast burt frá félaginu og bænum eins fljótt og mögulegt er.

Jón Guðni hefur verið einn lykilmanna Sundsvall undanfarin þrjú ár, en hann kom til félagsins frá Beerschot í Belgíu sumarið 2012. Hann var settur út úr byrjunarliðinu fyrir leikinn við Gefle en Sportbladet segir að samningur Jóns Guðna sé að renna út og ekkert hafi þokast í samningaviðræðum við félagið.

Jón Guðni kom inná á 89. mínútu en Sportbladet segir að hann hafi ekki tekið þátt í sigurgleði leikanna í leikslok heldur drifið sig í sturtu og burt af vellinum.

Fréttamaður Sportbladet, sem er íþróttahluti Aftonbladet, segir í grein sinni að hann hafi stöðvað Jón Guðna á leið sinni af vellinum og hann hafi sagt: „Það eina sem þú þarft að skrifa er að ég vill komast burt héðan eins fljótt og mögulegt er. Frá félaginu, úr bænum, frá þessu öllu."

Hversvegna?

„Hversvegna ekki? Hversvegna á ég að vera í félagi þar sem ég sit á bekknum?"

Hvernig horfir framtíðin við þér?

„Það var smá möguleiki á því að ég yrði hérna áfram, en ég ákvað endanlega í gær að ég vildi ekki vera hér lengur," svaraði Jón Guðni og kvaðst ekki reikna með því að fá fleiri tækifæri með liðinu.

„Við unnum leikinn og nú halda þjálfararnir að við séum besta lið í heimi," sagði Jón.

Þjálfari liðsins, Roger Franzén, og íþróttastjórinn Urban Hagblom vildu ekki ræða málið að neinu marki við Sportbladet.

„Svona var þetta ekki í gær þegar ég talaði við umboðsmanninn hans, eftir að hann fékk að vita að hann yrði ekki í liðinu. Það er eftir að ræða málin betur. Meira vil ég ekki segja, ég á eftir að ræða við Jón um þetta og get ekki sagt meira við fjölmiðla," sagði Hagblom.

Jón Guðni er 26 ára gamall miðvörður og hefur spilað 7 A-landsleiki fyrir Ísland, tvo á þessu ári, gegn Kanada og Eistlandi. Hann lék með Fram áður en hann gerðist atvinnumaður hjá Beerschot í Belgíu fyrir fjórum árum.

Sundsvall kom uppúr B-deildinni fyrir þetta tímabil og hefur með sigrinum á Gefle nánast tryggt sér áframhaldandi sæti í úrvalsdeildinni. Liðið er sjö stigum fyrir ofan umspilssæti þegar þremur umferðum er ólokið. Rúnar Már Sigurjónsson leikur einnig með Sundsvall og hann spilaði allan leikinn í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert