„Hvað er Rooney að bulla?“

Keane er ekki ánægður með Rooney.
Keane er ekki ánægður með Rooney. AFP

Fyrrverandi fyrirliði Manchester United, Roy Keane, var ekki ánægður með sína menn eftir 0:0 jafnteflið gegn PSV í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Hann gagnrýndi sérstaklega núverandi fyrirliða, Wayne Rooney, og athafnir hans utan vallar.

„Rooney talaði um það vantaði ró í leik United en verður að horfast í augu við að hann var slakur í leiknum. Hann þarf að standa sig betur en hann hefur gert,“ sagði Keane.

„Rooney hefur auðvitað staðið sig vel sem markaskorari. Hins vegar þarf hann að gera meira sem fyrirliði, hann þarf að taka meiri ábyrgð,“ bætti Keane við.

Fyrir nokkru fór Rooney á glímubardaga í Manchester þar sem hann gaf glímukappa vænan kinnhest. „Ég hugsa alltaf um það hvað leikmenn gera utan vallar. Um daginn sá ég hann slá glímukappa og spyr; hvað er Rooney að bulla? Ég myndi athuga það mál nánar.“

Hann sagðist skilja að leikmenn færu út en Rooney yrði að sýna betra fordæmi sem fyrirliði liðsins. „Mer finnst líka eins og Rooney sé ekki í frábæru líkamlegu formi. United voru öruggir til baka en markvörður PSV þurfti ekki að taka á honum stóra sínum í kvöld,“ sagði svekktur Keane að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert