Tyrkir fá ekki að spila í Rússlandi

Gökdeniz Karadeniz hjá Rubin Kazan er einn þeirra Tyrkja sem …
Gökdeniz Karadeniz hjá Rubin Kazan er einn þeirra Tyrkja sem spila í Rússlandi. Hér er hann í baráttu við Emre Can hjá Liverpool í Evrópudeildinni. AFP

Rússnesk knattspyrnufélög munu ekki ráða til sín tyrkneska leikmenn í framhaldi af atvikinu á landamærum Tyrklands og Sýrlands á dögunum þegar rússneska orrustuþotan var skotin niður.

Vitalij Mutko, íþróttamálaráðherra Rússlands, sagði í viðtali við fréttastofuna R-Sport að þeir tyrknesku leikmenn sem leika með rússnesku liðum í dag fái að vera áfram og ljúka samningum sínum, en þeir verði ekki framlengdir.

„Vilji einhver semja  við nýja tyrkneska leikmenn, þá er það ekki hægt," sagði Mutko.

Hann hefur jafnframt óskað eftir því við rússnesk félög að þau hætti við æfingaferðir til Tyrklands. Mörg lið ætluðu þangað í vetrarfríinu, þar á meðal Krasnodar, lið Ragnars Sigurðssonar.

Þá hefur þetta áhrif á vinnu við rússneska knattspyrnuleikvanga fyrir lokakeppni heimsmeistaramótsins árið 2018. Mutko sagði að tyrknesk fyrirtæki sem þegar væru búin að semja um að byggja leikvanga eða vinna við þá, myndu halda sínu óáreitt, en ekki yrði skrifað undir nýja samninga við tyrkneska aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert