Birkir gulltryggði meistaratitilinn

Birkir Bjarnason fagnar meistaratitlinum með félögum sínum í kvöld.
Birkir Bjarnason fagnar meistaratitlinum með félögum sínum í kvöld. Ljósmynd/fcb.ch

Birkir Bjarnason landsliðsmaður í knattspyrnu gulltryggði Basel svissneska meistaratitilinn í knattspyrnu í kvöld þegar hann lagði upp fyrra markið og skoraði það seinna í 2:1 sigri á Sion á heimavelli.

Með sigrinum er Basel með 16 stiga forystu á Young Boys þegar fimm umferðum er ólokið af deildinni. Þetta er sjöunda árið í röð sem Basel vinnur meistaratitilinn í Sviss og í nítjánda skipti samtals. Liðið hefur haft algjöra yfirburði í vetur og unnið 24 leiki af 31. Basel er með 76 stig, Young Boys 60, Grasshoppers 46 og Sion 44 stig í fjórum efstu sætunum.

Birkir lék allan leikinn í kvöld. Eftir 24 mínútna leik var hann felldur í vítateig Sion og dæmd vítaspyrna sem Matías Delgado skoraði úr. Birkir kom síðan Basel í 2:0 á 67. mínútu. Sion minnkaði muninn en Basel hélt út og gríðarlegur fögnuður braust út í leikslok.

Birkir kom til liðs við Basel síðasta sumar og hefur átt afar gott tímabil en hann hefur gert 12 mörk, níu í svissnesku deildinni og þrjú í Evrópudeildinni.

Hér fyrir neðan má sjá Birki fagna markinu:

Birkir Bjarnason er svissneskur meistari á sínu fyrsta tímabili með …
Birkir Bjarnason er svissneskur meistari á sínu fyrsta tímabili með Basel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert