Drápu tólf stuðningsmenn Real Madrid

Stuðningsmenn Real Madrid á leiknum í gær.
Stuðningsmenn Real Madrid á leiknum í gær. AFP

Liðsmenn Ríkis íslams myrtu tólf stuðningsmenn spænska stórliðsins Real Madrid á meðan úrslitaleikur liðsins gegn Atlético Madrid fór fram í gær en árásin átti sér stað í Baakouba í Írak. Þetta kemur fram í spænskum fjölmiðlum í dag.

Fjölmargir stuðningsmenn Real Madrid komu saman á bar í Baakouba til þess að fylgjast með liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu sem fór fram á San Siro í Mílanó í gær.

Sergio Ramos kom Real Madrid á bragðið í leiknum en Yannick Ferreira-Carrasco jafnaði metin þegar um það bil tólf mínútur  voru eftir. Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem Real Madrid tryggði ellefta titil sinn en stuttu áður en vítaspyrnukeppnin hófst átti sér stað skotárás á staðnum.

Fjórir vopnaðir menn sem voru á vegum íslamska ríkisins hófu skotárás sem varð til þess að tólf manns létu lífið. Þá voru átta aðrir fluttir á sjúkrahús.

Þetta er önnur árásin í þessum mánuði sem tengist Real Madrid. Fyrr í maí voru 16 stuðningsmenn liðsins drepnir er stuðningsmannaklúbbur félagsins kom saman í Samarra í Írak, en Ríki Íslams telur að knattspyrna sé gegn þeirra trú.

Florentino Perez, forseti Real Madrid, tileinkaði stuðningsmönnunum sem létust fyrr í mánuðnum, sigurinn á Atlético Madrid í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert