Hoddle til í að taka við Englandi

Glenn Hoddle hefur orðaður við þjálfarastöðuna hjá enska landsliðinu.
Glenn Hoddle hefur orðaður við þjálfarastöðuna hjá enska landsliðinu.

Glenn Hoddle, fyrrverandi landsliðsþjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst reiðubúinn að ræða við enska knattspyrnusambandið um endurkomu í starfið, en leit stendur yfir að eftirmanni Roys Hodgsons sem sagði upp störfum eftir tap liðsins gegn Íslandi í 16 liða úrslitum Evrópumótsins á dögunum. 

Hoddle stýrði enska landsliðnu á árunum 1996 til 1999 og var með 60% sigurhlutfall, en einungis sir Alf Ramsey og Fabio Capello státa af betri árangri. Hoddle stýrði Englandi á heimsmeistaramótinu í Frakklandi árið 1998 þar sem liðið féll úr leik í 16 liða úrslitum gegn Argentínu. Hoddle var síðan látinn taka pokann sinn árið 1999.  

„Það er mikill heiður fyrir mig að vera orðaður við að taka við enska landsliðinu á nýjan leik. Ég hef ekkert heyrt frá enska knattspyrnusambandinu, en ef þeir hafa áhuga á mínum kröftum er ég meira en til í viðræður um starf hjá enska knattspyrnusambandinu. Þeir gætu haft annan mann í huga í starfið, en ég er til í aðstoða á allan þann hátt sem ég get,“ sagði Hoddle í samtali við ITV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert