Jón Daði á leið til Englands?

Jón Daði Böðvarsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Frakklandi …
Jón Daði Böðvarsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Frakklandi í átta liða úrsltum EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fram kemur á vefsíðunni westlondonsport.com að QPR sem leikur í ensku B-deildinni í knattspyrnu karla hafi áhuga á að tryggja sér krafta landsliðsframherjans Jóns Daða Böðvarssonar sem er á mála hjá þýska B-deildarliðinu Kaiserslautern. 

QPR hefur misst frá sér framherjana Matt Phillips og Junior Hoilett í félagaskiptaglugganum í sumar og leitar nú logandi ljósi að liðstyrk framarlega á vellinum. Jón Daði gekk til liðs við Kaiserslautern í janúar á þessu ári og gerði tveggja og hálfs árs samning við þýska liðið.

Jón Daði lék 15 leiki fyrir Kaiserslautern á síðustu leiktíð og skoraði í þeim leikjum tvö mörk. Þá hefur hann leikið 26 landsleiki og skoraði í þeim leikjum tvö mörk.

Jón Daði var í byrjunarliði Íslands í öllum fimm leikjum liðsins í lokakeppni Evrópumótsins í sumar og skoraði annað marka íslenska liðsins í 2:1-sigrinum gegn Austurríki sem tryggði liðinu sæti í 16 liða úrslitum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert