Eiður fer í indversku ofurdeildina

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. AFP

Knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen hefur samið við indverska ofurdeildarliðið Pune City fyrir komandi keppnistímabil. Eiður var á mála hjá norska félagsliðinu Molde frá febrúarmánuði en var leystur undan samningum í byrjun ágúst og hefur síðan þá leitað að nýju félagi.

Eiður Smári var ekki valinn í leikmannahóp íslenska landsliðsins fyrir leikinn í undankeppni HM gegn Úkraínu í september vegna óvissu um framtíðina. Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson sagði á blaðamannafundi að dyrnar væru enn opnar skyldi Eiður Smári halda áfram spilamennsku.

Nýstofnuð og stutt deild

Indverska ofurdeildin er mjög ung að aldri, stofnuð árið 2013 og aðeins tvö keppnistímabil hafa farið fram, 2014 og 2015. Fyrirkomulagið er með öðru móti en þekkist í Evrópu. Þetta er bandarískt snið þar sem það er aðeins ein deild með átta liðum, ekkert lið fellur og ekkert kemst upp um deild. Efstu fjögur liðin undir lok tímabilsins fara síðan í umspil um titilinn. Tímabilið er mjög stutt og nær frá byrjun október til síðari hluta desember.

Deildin var stofnuð þrátt fyrir að önnur deild væri fyrir í Indlandi, indverska úrvalsdeildin. Sú keppni er á evrópska forminu og er enn til staðar en hefur ekki sama fjármagn milli handanna og ofurdeildin.

Nánar er fjallað um indversku ofurdeildina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert