Hegerberg knattspyrnukona Evrópu

Ada Hegerberg með verðlaunagripinn á sviðinu í Grimaldi Forum í …
Ada Hegerberg með verðlaunagripinn á sviðinu í Grimaldi Forum í Mónakó í dag. AFP

Ada Hegerberg frá Noregi var í dag kjörin besta knattspyrnukona Evrópu 2015-2016 í kosningu UEFA og ESM, Samtaka evrópskra íþróttafjölmiðla, en niðurstaðan var gerð opinber í Mónakó rétt í þessu.

Í síðustu atkvæðagreiðslu kjörsins stóð valið á milli hennar, Amandine Henry frá Frakklandi og Dzsenifer Marozsán frá Þýskalandi. Þetta er í fyrsta skipti sem sigurvegarinn í kjörinu kemur ekki frá Þýskalandi.

Tuttugu íþróttafréttamenn frá jafnmörgum Evrópulöndum greiddu atkvæði í kjörinu og fulltrúi Morgunblaðsins og mbl.is var í þeim hópi.

Ada Hegerberg er nýorðin 21 árs gömul, fædd árið 1995, en hún átti nánast fullkomið tímabil þar sem hún varð franskur meistari og bikarmeistari með Lyon og vann svo Meistaradeild Evrópu með félaginu.

Hegerberg varð markadrottning frönsku 1. deildarinnar þar sem hún gerði 33 mörk í 20 leikjum fyrir Lyon og hún varð einnig markadrottning Meistaradeildarinnar þar sem hún skoraði 13 mörk í 9 leikjum og átti að auki fjórar stoðsendingar. Samtals gerði hún 54 mörk í 34 mótsleikjum fyrir Lyon.

Þá skoraði Hegerberg 6 mörk í 6 leikjum Noregs í undankeppni EM og alls 9 mörk í 10 landsleikjum á tímabilinu.

Hún var í ársbyrjun valin knattspyrnumaður ársins í Noregi og varð fyrsta konan í 20 ár til að hljóta þá viðurkenningu.

Hegerberg lék fyrst 15 ára gömul með meistaraflokksliði Kolbotn og spilaði þar fyrstu tvö árin en síðan með Stabæk. Hún skoraði 39 mörk í 48 leikjum með liðunum í norsku úrvalsdeildinni, og alls 48 mörk í 59 mótsleikjum.

Árið 2012 gekk hún til liðs við Turbine Potsdam í Þýskalandi og skoraði þar 11 mörk í 25 leikjum í efstu deild en samtals 23 mörk í 53 mótsleikjum.

Hegerberg fór síðan til Lyon árið 2014 og þar hefur hún þegar gert 107 mörk í 93 mótsleikjum. Þar af 59 mörk í 42 leikjum í 1. deildinni og orðið franskur meistari bæði árin.

Með norska landsliðinu er hún búin að skora 28 mörk í 49 landsleikjum en hún var í norska liðinu sem fékk silfurverðlaunin í Evrópukeppninni í Svíþjóð árið 2013.

Samtals er þessi marksækna knattspyrnukona búin að skora 178 mörk í 205 mótsleikjum fyrir félagslið og landslið og er þó ekki nema 21 árs gömul.

Fyrr í mánuðinum var upplýst hverjar hefðu endað í fjórða til tíunda sæti í kjörinu og það voru eftirtaldar:

4. Saki Kumagai, Lyon og Japan
5. Wendie Renard, Lyon og Frakkland
6. Louisa Nécib, Lyon og Frakkland
7. Alexandra Popp, Wolfsburg og Þýskaland
8. Camille Abily, Lyon og Frakkland
9. Eugénie Le Sommer, Lyon og Frakkland
10. Amel Majri, Lyon og Frakkland

Sara Björk Gunnarsdóttir hafnaði í 19. sæti í fyrstu umferð kjörsins og er fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn sem kemst á blað í þessari kosningu.

Ada Hegerberg, besta knattspyrnukona Evrópu leiktíðina 2015 - 2016, með …
Ada Hegerberg, besta knattspyrnukona Evrópu leiktíðina 2015 - 2016, með verðlaunagripinn á sviðinu í Mónakó í dag. UEFA/Getty Images
Ada Hegerberg fagnar eftir að hafa skorað fyrir félagslið sitt, …
Ada Hegerberg fagnar eftir að hafa skorað fyrir félagslið sitt, Olympique Lyonnais í Frakklandi. AFP
Dzsenifer Marozsan fagnar glæsilegu marki sínu, fyrra marki Þýskalands í …
Dzsenifer Marozsan fagnar glæsilegu marki sínu, fyrra marki Þýskalands í 2:1 sigri á Svíum, í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Brasilíu. AFP
Amandine Henry frá Frakklandi, með boltann í leik gegn Kólumbíu …
Amandine Henry frá Frakklandi, með boltann í leik gegn Kólumbíu á nýafstöðum Ólympíuleikum í Brasilíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert