Fyrirliði ÍBV í fyrsta HM-hópnum

Avni Pepa er fyrirliði ÍBV og landsliðsmaður Kósóvó.
Avni Pepa er fyrirliði ÍBV og landsliðsmaður Kósóvó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Avni Pepa, fyrirliði knattspyrnuliðs ÍBV, er í fyrsta landsliðshópi Kosóvó fyrir leik í undankeppni stórmóts, en hópurinn var tilkynntur í dag fyrir leik liðsins gegn Finnlandi 5. september. Liðin eru með Íslandi, Króatíu, Úkraínu og Tyrklandi í undanriðli HM 2018.

Pepa, sem leikur sitt annað ár með ÍBV, hefur spilað flesta vináttulandsleiki Kosóvó hingað til en þjóðin er nýbúin að fá staðfesta aðild að UEFA og FIFA eftir viðskilnað við Serbíu.

Leikmenn Kosóvó koma annars víðs vegar að. Margir þeirra spila í Þýskalandi, Sviss og Tyrklandi.

Leikir Íslands og Kosóvó fara báðir fram á næsta ári, 24. mars í Kosóvó og 9. október á Laugardalsvelli, en það verður lokaleikur Íslands í undankeppni HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert