Eiður mun ekkert leika í Indlandi

Eiður Smári Guðjohnsen á ferðinni á EM í Frakklandi í …
Eiður Smári Guðjohnsen á ferðinni á EM í Frakklandi í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eiður Smári Guðjohnsen mun ekki ná að leika einn einasta leik fyrir Pune City í indversku ofurdeildinni sem hefst nú í byrjun október.

Eiður meiddist í ökkla og í dag var tilkynnt að hann myndi ekkert geta spilað á hinni stuttu leiktíð í deildinni af þeim sökum, en keppni þar lýkur í desember. Pune City þarf einnig að spjara sig án miðjumannsins Andre Bikey. Gaurav Modwel, framkvæmdastjóri félagsins, segir þetta mikið áfall:

„Eiður er leiðtogi liðsins og þeir Andre eru báðir frábærir leikmenn og stórkostlegar manneskjur. Það er verulegt áfall að heyra af meiðslum þeirra og þeirra verður saknað af öllum hjá félagiðnu. Eiður er sjálfur mjög vonsvikinn,“ sagði Modwel. Eiður sagðist sjálfur neyðast til að bregðast við meiðslum sínum því hann ætlaði sér að spila meiri fótbolta í framtíðinni:

„Það sem var svo spennandi byrjun á mínum tíma hér í Indlandi með FC Pune City hefur fengið snöggan endi,“ sagði Eiður. „Komið hefur í ljós að þau eymsli sem ég fann fyrir í ökkla eru meira en bara eymsli. Eftir að hafa gengist undir skoðun og fengið álit ýmissa sérfræðinga hefur mér verið ráðlagt að taka meiri tíma í endurhæfingu. Læknar liðsins og deildarinnar mæla með því að ef ég ætla að halda áfram að spila í framtíðinni, sem ég ætla að gera, þá verði ég að taka mér tíma utan vallar í að jafna mig,“ sagði Eiður sem þakkaði öllum hjá Pune City kærlega fyrir tímann hjá félaginu og kvaðst hlakka til að snúa aftur í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert