Langþráður leikur hjá Jóni

Jón Guðni Fjóluson.
Jón Guðni Fjóluson.

Knattspyrnumaðurinn Jón Guðni Fjóluson spilaði fyrsta leik sinn með sænsku meisturunum Norrköping í rúma þrjá mánuði í dag þegar lið hans vann Falkenberg, 2:1, í sænsku úrvalsdeildinni.

Jón Guðni brákaðist á kjálka í leik gegn Rosenborg frá Noregi í forkeppni Meistaradeildarinnar 20. júlí og missti í kjölfarið af tólf leikjum Norrköping. Reiknað var með að hann yrði ekkert meira með á tímabilinu en Jón kom þó inn í hópinn gegn Malmö í toppslag liðanna um síðustu helgi. Í dag kom hann svo inn á sem varamaður um miðjan síðari hálfleik.

Með sigrinum eygir Norrköping enn von um að vinna meistaratitilinn annað árið í röð. Malmö er þó í kjörstöðu, er með 60 stig og Norrköping 56 þegar þremur umferðum er ólokið. AIK er með 53 stig og á fjóra leiki eftir og gæti því farið upp fyrir Norrköping annað kvöld.

Þá hafa Jón Guðni og samherjar hans gulltryggt sér sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar næsta sumar með sigrinum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert