Fjöldi liða fylgdist með Elíasi í gær

Elías Már með boltann í leik með U21 árs landsliði …
Elías Már með boltann í leik með U21 árs landsliði Íslands fyrr í mánuðinum. mbl.is/Golli

Útsendarar hvorki fleiri né færri en 69 liða fylgdust með í gær þegar Elías Már Ómarsson tryggði IFK Gauta­borg sig­ur­inn gegn AIK í sænsku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu.

Íþróttastjóri Gautaborgar, Mats Gren, fullyrðir að Elías sé svo eftirsóttur, en hann er á láni hjá Gautaborg frá norska liðinu Vål­erenga. Gautaborg hefur til 15. nóvember til að nýta sér forkaupsrétt sem liðið hefur til að kaupa Elías frá Vål­erenga.

Viðræður standa yfir á milli umboðsmanns Elíasar og Gautaborgar, samkvæmt íþróttastjóranum, sem hefur verið gríðarlega ánægður með gengi íslenska leikmannsins í Svíþjóð. Hann hefur skorað fimm mörk í tíu leikjum.

„Það tekur alltaf smá tíma að koma sér inn í hópinn en hann gerir margt mjög vel. Hann hleypur endalaust og vinnur vel. Einnig hefur hann orðið aðeins rólegri með boltann, en hann virkaði örlítið stressaður í byrjun. Markið hans í dag (í gær) var frábært,“ sagði Gren eftir leikinn í gær.

Sjálfur sagði Elías eftir leikinn að hann vildi helst af öllu vera áfram í Gautaborg. „Ég vil vera áfram hér. Þetta er frábært lið og mér líður mjög vel,“ sagði Elías.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert