Tók skóna úr hillunni og fór í hanska

Erla Steina Arnardóttir
Erla Steina Arnardóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landsliðskonan fyrrverandi Erla Steina Arnardóttir, sem ekki hafði spilað fótbolta frá árinu 2013, hljóp í skarðið og stóð í marki Íslendingaliðsins Kristianstad í sænsku bikarkeppninni í knattspyrnu í gær. Erla Steina, sem er 33 ára gömul, lék sem miðvörður og miðjumaður á ferli sínum en tók vel í beiðni Elísabetar Gunnarsdóttur þjálfara í algjöru neyðarástandi sem ríkti í markmannamálum Kristianstad. Og það skilaði sér í 3:1-sigri liðsins á Kalmar, og er Kristianstad því komið áfram í 4. umferð.

„Þau höfðu samband í síðustu viku, svo það var lítill tími til umhugsunar. En maður mætir þegar Beta og liðið hringir og óskar eftir aðstoð frá manni,“ sagði Erla Steina við Kristianstadsbladet fyrir leikinn, en hún lék með Kristianstad árin 2007-2011.

Erla Steina, sem á að baki 40 A-landsleiki, lagði skóna á hilluna 2013 en hefur haldið sér vel við og æfir meðal annars crossfit 6-7 sinnum í viku. Á ferli sínum sem knattspyrnukona lék hún einn leik sem markvörður fyrir Kristianstad, en hún átti það til að spreyta sig í marki á æfingum hjá liðinu og Elísabet vissi því að hægt væri að treysta á hana. Þeir þrír markverðir sem Kristianstad hugðist nota í ár misstu allir af leiknum í gær, tveir vegna meiðsla auk þess sem Stina Lykke Petersen var með danska landsliðinu á æfingamótinu í Kína sem íslenska landsliðið lék einnig á. Sif Atladóttir var sömuleiðis ekki með Kristianstad í gærkvöld vegna mótsins í Kína.

Kristianstad á tvo leiki eftir í sænsku úrvalsdeildinni og ekki er útilokað að Erla Steina verði til taks, að minnsta kosti sem varamarkvörður í þeim mikla fallslag sem fram undan er hjá liðinu. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert