Rúnar ráðinn þjálfari Lokeren

Rúnar Kristinsson
Rúnar Kristinsson Ljósmynd/Ståle Linblad

Rúnar Kristinsson hefur verið ráðinn þjálfari belgíska knattspyrnufélagsins Lokeren en gengið var frá því rétt áðan, samkvæmt öruggum heimildum mbl.is.

Hann hefur fundað með forráðamönnum Lokeren í allan dag og mbl.is fékk rétt í þessu staðfest í röðum félagsins að málin væru í höfn. Reiknað er með formlegum fréttamannafundi hjá Lokeren á morgun þar sem Rúnar verði kynntur til sögunnar.

Rúnar tekur við af Georges Leekens, sem hætti störfum í vikunni eftir slakt gengi Lokeren það sem af er tímabilinu en hann er þegar kominn í starf á ný og var í dag ráðinn landsliðsþjálfari Alsír.

Rúnari var í síðasta mánuði sagt upp störfum hjá Lilleström í Noregi eftir að hafa verið þar við stjórnvölinn í tæplega tvö ár. Áður þjálfaði hann KR í fjögur ár.

Arnar Þór Viðarsson er aðstoðarþjálfari Lokeren og stýrði æfingum liðsins í gær og dag, en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort hann haldi áfram undir stjórn Rúnars.

Rúnar kannast vel við sig í Lokeren en þar lék hann í sjö ár, frá 2000 til 2007, og er einn af vinsælustu leikmönnunum í sögu félagsins. Arnar var samherji hans þar í sex af þessum sjö árum, og kom aftur til félagsins í fyrra.

 Lokeren endaði í 11. sæti belgísku A-deildarinnar í fyrravetur en var svo nálægt því að vinna sér Evrópusæti í umspili um það. Núna er liðið í 13. sæti eftir átta töp í fyrstu tólf umferðunum og er aðeins einu stigi fyrir ofan neðsta lið deildarinnar.

Sverrir Ingi Ingason hefur leikið með Lokeren frá ársbyrjun 2015 og Ari Freyr Skúlason kom til félagsins í sumar.

Uppfært kl. 16.55:

Samkvæmt nýjustu heimildum mbl.is í Lokeren verður samningur Rúnars út þetta keppnistímabil með möguleika á framlengingu að þeim tíma loknum. Lokeren hefur boðið til fréttamannafundar á hádegi á morgun, sem er klukkan 10.00 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert