Valið er á milli Rúnars og Hasi

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rúnar Kristinsson er annar af þeim tveimur sem forráðamenn belgíska félagsins Lokeren eru með í sigtinu sem næsta þjálfara liðsins. Hinn er Besnik Hasi, sem einnig er fyrrum leikmaður liðsins.

Geroges Leekens var rekinn frá félaginu í gær og nafn Rúnars kom fljótlega upp. Fyrst var Rúnar talinn vera einn af fjórum sem eru inni í myndinni, en nú hefur þeim verið fækkað niður í tvo eftir því sem belgíski miðillinn Het Laatste Niuews greinir frá.

„Við viljum meiri aga í búningsklefann þar sem eitt mun þurfa að ganga yfir alla. Það eru gildi sem við þurfum að taka upp að nýju,“ segir Willy Reynders, yfirmaður knattspyrnumála hjá Lokeren. Þá er ljóst að Arnar Þór Viðarsson, sem stýrir liðinu á meðan þjálfaraleitin stendur yfir, kemur ekki til greina til frambúðar.

Rúnar Kristinsson var látinn fara frá Lilleström í Noregi fyrir skömmu, en hann var leikmaður Lokeren á árunum 2000-2007 og í miklum metum hjá félaginu. Sá sem er uppi á móti honum fyrir starfið, Besnik Hasi, er 44 ára Kósovó-Albani og lék með liðinu veturinn 2006-2007. Hann var látinn fara frá belgíska liðinu Anderlecht í vor, tók í kjölfarið við Legia Varsjá í Póllandi en var rekinn þaðan á dögunum.

Uppfært 15:43

Samkvæmt belgískum dagblöðum í morgun var Hasi talinn ofar í goggunarröðinni en Rúnar um starfið. Rúnar hefur hins vegar hreppt hnossið eins og sjá má í nýrri frétt mbl.is.

Rúnar ráðinn þjálfari Lokeren

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert