Afhjúpa vafasöm viðskipti í boltanum

Ronaldo er á forsíðu Spiegel.
Ronaldo er á forsíðu Spiegel. Ljósmynd/Skjáskot af vefsíðu Spiegel

Blaðamenn víða að úr heiminum, meðal annars frá þýska dagblaðinu Spiegel, hafa rannsakað vafasamar millifærslur á peningum í evrópska fótboltanum. Á meðal knattspyrnumanna sem koma við sögu í skjölunum sem þeir hafa undir höndum eru Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, og Mesut Özil, leikmaður Arsenal.

Um stóran leka er að ræða og eru skjölin 18,6 milljón talsins, samkvæmt frétt Spiegel, sem birtir fyrstu fréttina í blaði sínu á morgun. Í skjölunum eru meðal annars samningar leikmanna og annars konar leynilegir samningar. 

Rannsóknin á skjölunum hefur staðið yfir síðustu sjö mánuði og segir Spiegel að um sé að ræða stærsta upplýsingalekann í íþróttasögunni. Um 60 blaðamenn frá Evrópu hafa aðstoðað dagblaðið við vinnuna.

Greint verður frá niðurstöðunum á næstu vikum. Samkvæmt Spiegel gefa skjölin einstaka innsýn inn í viðskiptaheim knattspyrnunnar. Skattamál Ronaldo og Özil koma þar við sögu, þar á meðal skattaundanskot.

Fram kemur að Ronaldo hefði getað falið 150 milljónir evra í skattaskjólum í Sviss og á Bresku Jómfrúareyjunum.

„Af þessari upphæð greiddi framherjinn aðeins 5,6 milljónir evra í skatt, sem er rétt um fjögur prósent,“ sagði í umfjöllun Spiegel.  

Kappinn er sagður hafa notið góðs af einhvers konar kerfi sem umboðsmaður hans, Jorge Mendes, bjó til.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er einnig talinn hafa falið 12 milljónir evra á svissneskum reikningi sem var í eigu fyrirtækis á Bresku Jómfrúareyjunum. Mendes er einnig umboðsmaður Mourinho.

Fyrirtæki Mendes hefur vísað þessu á bug og segir að bæði Ronaldo og Mourinho hafi „virt til fullnustu“ skyldur sínar gagnvart spænskum og breskum skattayfirvöldum.

Aflandsfélög í Panama og á Írlandi koma einnig við sögu í skjölunum. 

Fram kemur að á næstu vikum verða einnig birtar ásakanir um vændi og misnotkun á börnum í knattspyrnuheiminum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert