Guðbjörg samdi til tveggja ára

Guðbjörg Gunnarsdóttir í leik með Djurgården.
Guðbjörg Gunnarsdóttir í leik með Djurgården. Ljósmynd/dif.se

Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, hefur framlengt samning sinn við sænska úrvalsdeildarfélagið Djurgården til næstu tveggja ára. Þetta var tilkynnt á vef félagsins fyrir stundu.

Guðbjörg lék með Djurgården frá 2009 til 2012 og sneri síðan aftur til félagsins fyrir nýlokið tímabil eftir að hafa spilað með Avaldsnes, Potsdam og Lillestrøm.

Djurgården var nýliði í úrvalsdeildinni í ár og kom á óvart með því að enda í sjötta sætinu.

„Ég er ánægð með að hafa samið við Djurgården til tveggja ára í viðbót. Við festum okkur í sessi í úrvalsdeildinni í ár og ég vil leggja mitt af mörkum til að við getum komist í toppbaráttuna. Ég hef farið víða á ferlinum en Djurgården hefur alltaf verið eins og heimili mitt. Ég kann vel við mig í þessu umhverfi og hlakka til næstu tveggja ára,“ sagði Guðbjörg á vef Djurgården.

„Gugga hefur verið mjög mikilvægur hlekkur í okkar liði á þessu fyrsta tímabili eftir að við snerum aftur í úrvalsdeildina. Það er virkilega stór þáttur í því markmiði okkar að taka næsta skref að hafa samið við hana til tveggja ára í viðbót,“ sagði Henrik Berggren hjá Djurgården.

Guðbjörg er 31 árs gömul og lék með Val og FH áður en hún fór í atvinnumennsku fyrir átta árum. Hún hefur spilað 45 landsleiki fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert