Mega ekki misstíga sig

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi mætast á Camp Nou í …
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi mætast á Camp Nou í dag og þar er mikið í húfi eins og ávallt þegar lið þeirra eigast við. AFP

Spánarmeistarar Barcelona mega engan veginn við því að misstíga sig í stóra slagnum við Real Madrid, „El Clasico“, þegar knattspyrnustórveldin mætast á Camp Nou í Barcelona í dag.

Real Madrid er ósigrað á toppi 1. deildarinnar með 33 stig eftir þrettán umferðir og er sex stigum á undan Barcelona og Sevilla sem eru með 27 í öðru og þriðja sætinu. Sevilla mætir botnliði Granada í fyrsta leik dagsins og því eru allar líkur á að Barcelona verði í þriðja sætinu þegar flautað verður til leiks klukkan 15.15 að íslenskum tíma.

Börsungar hafa verið brokkgengir það sem af er tímabilinu og átta sigrar í fyrstu þrettán leikjunum þykir ekkert sérstakt á þeim bænum. Síðustu þrír leikir liðsins hafa endað með jafntefli og þar hafa sex dýrmæt stig farið í vaskinn. Real Madrid hefur hinsvegar verið sannfærandi það sem af er og á möguleika á að skilja erkifjendurna eftir níu stigum á eftir sér. Í fyrra skildi eitt stig liðin að í lokin þegar Barcelona tryggði sér titilinn í lokaumferðinni.

Þrír markahæstu leikmenn deildarinnar verða á ferðinni á Camp Nou. Cristiano Ronaldo hefur skorað tíu mörk fyrir Real Madrid en Lionel Messi hefur skorað níu mörk fyrir Barcelona og Luis Súarez átta. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert