Vafasöm félagaskipti

Cristian Manea samdi aldrei við Chelsea.
Cristian Manea samdi aldrei við Chelsea. AFP

Það eru eflaust fáir sem kannast við nafnið Cristian Manea en hann var sagður hafa samið við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea fyrir ári síðan, félagaskipti sem urðu aldrei að veruleika. Vefsíðan Football-Leaks ákvað að grafa djúpt eftir upplýsingum um félagaskipti hans og komst þá að undarlegum hlutum.

Manea, sem er 19 ára gamall, er yngsti A-landsliðsmaður Rúmena frá upphafi, en hann lék sinn fyrsta landsleik aðeins 16 ára gamall fyrir tveimur árum. Hann var þá á mála hjá Viitorul Constanta í heimalandinu.

Nokkrum vikum eftir fyrsta landsleikinn hans var hann seldur til kýpverska félagsins Apollon Limassol fyrir 2,5 milljónir evra, sem þótti afar undarleg upphæð fyrir leikmann á hans aldri og þá sérstaklega þar sem hann var aðeins metinn á 300 þúsund evrur.

Gheorghe Hagi, sem er þjóðhetja í augum Rúmena, er forseti Viitorul, náði vafasömu samkomulagi við aflandsfélag á Möltu en þar var greidd ein milljón evra. Aflandsfélagið nefnist Dito Trading and Consulting Limited en Karl Schranz er framkvæmdastjóri þess og þá er FIFA-umboðsmaðurinn Torsten Weck einnig í stjórn félagsins.

Félagið var fengið til þess að meta félagaskipti Manea en Hagi viðurkenndi á sínum tíma að það hafi hjálpað til við söluna á Manea. Aflandsfélagið hefur ekki tengst neinum öðrum félagaskiptum innan knattspyrnunnar og þá er ekki til nein heimasíða eða hægt að finna nokkuð um félagið. Schranz, Weck og Hagi hafa allir neitað að tjá sig um aflandsfélagið.

„2,5 milljónir evra er ansi há upphæð fyrir leikmenn á þessum aldri og þá sérstaklega fyrir félög frá Kýpur. Það sem er enn skrítnara er það að Manea var metinn á 300 þúsund evrur á Transfermarkt-síðunni,“ sagði á Black-Sea sem lekur reglulega út skjölum sem tengjast knattspyrnunni.

„Félagaskiptin áttu sér stað í laumi. Þau birtust ekki á neinum samskiptamiðlum og þá fengu fjölmiðlar engar upplýsingar um skiptin. Manea hélt áfram að spila fyrir Viitorul, líkt og félagaskiptin hefðu aldrei átt sér stað. Þrátt fyrir skiptin fór Manea aldrei til Apollon og heimsótti ekki einu sinni eyjuna,“ sagði þar enn fremur.

Í eigu þriðja aðila

Það er því búið að áætla að Manea sé í eigu þriðja aðila, sem er þá Apollon. FIFA er búið að setja lög á að þriðji aðili megi ekki eiga hlut í leikmönnum en ljóst er þó að það er einhver maðkur í mysunni. Félög geta enn komist fram hjá þeirri reglu með því að selja leikmenn í eitt félag en senda þá svo annað.

Í júlí á síðasta ári var greint frá því á öllum stærsu miðlum heims að Manea væri búinn að ná samkomulagi við Chelsea um að fara til félagsins. Þá bjuggust flestir við að hann væri kominn til félagsins og var hann jafnvel settur í hópinn hjá Chelsea í hinum geysivinsæla leik Football Manager.

Manea fór þó aldrei til Chelsea, heldur fór hann til belgíska félagsins Mouscron á láni og það sem er enn ótrúlegra er að belgíska félagið hélt því fram að hann væri á láni frá Chelsea, þegar hann var í raun í eigu Apollon Limassol.

Mouscron er í eigu ísraelska auðkýfingsins Adar Zahavi en sá er einmitt frændi Pini Zahavi, sem er þekktur umboðsmaður í knattspyrnuheiminum. Pini sér um yfir 75 prósent af öllum félagaskiptum Apollon Limassol.

Það þótti afar einkennilegt að fréttavefurinn Reuters birti frétt um að Chelsea hafi náð samkomulagi um kaup á Manea þegar engin staðfesting var frá félögunum. Þar er talið að það hafi einungis verið tilraun til að auka markaðsvirði Manea.

Hér fyrir neðan má sjá mynd sem Black Sea birti á vefsíðu sinni þar sem allt þetta er útskýrt nánar.

Hér eru öll tengsl útskýrð.
Hér eru öll tengsl útskýrð. Black Sea
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert