Glódís gerði nýjan samning

Glódís Perla Viggósdóttir í landsleik í sumar.
Glódís Perla Viggósdóttir í landsleik í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Eskilstuna United um að leika með þvi áfram á næsta keppnistímabili. Þetta kemur fram á vef félagsins.

Glódís hefur leikið með Eskilstuna undanfarin tvö ár og verið í stóru hlutverki í vörn þess frá fyrsta leik en hún hefur spilað 42 af 44 leikjum liðsins í úrvalsdeildinni, alla í byrjunarliðinu, á þessum tíma. Hún spilaði allar 90 mínúturnar í 37 fyrstu leikjunum eftir að hún kom til félagsins.

Eskilstuna hefur hafnað í 2. og 3. sæti deildarinnar þessi tvö ár og Glódís lék með liðinu í Meistaradeild Evrópu í haust.

„Glódís hefur verið lykilmaður í okkar liði á þessum tveimur árum og við erum ánægðir með að hún skuli leika með okkur eitt ár til viðbótar. Vonandi getur hún tekið enn eitt skrefið í sinni þróun sem leikmaður hjá okkur,“ segir Viktor Eriksson, yfirþjálfari og íþróttastjóri Eskilstuna United, á vef félagsins.

„Ég er afar ánægð með að vera eitt ár til viðbótar í Eskilstuna og hjá Eskilstuna United. Félagið er alltaf að þróast og verða faglegra og ég vil taka þátt í því. Vonandi get ég sýnt enn meira á næsta tímabili og tekið frekari framförum sem leikmaður,“ segir Glódís.

Hún er 21 árs gömul en hefur verið í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu undanfarin þrjú ár og hefur þegar spilað 46 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert